• 1. Object
  • 2. Object

5.9° - S 0.6 m/s

585 0050

Book Tee Times

Fyrirkomulag móta

Golfmót á vegum Golfklúbbsins Odds skiptast niður í nokkra flokka eftir því hverjum er heimil þátttaka.

Þar eru helst:
Almennt – Mót þar sem öllum félagsmönnum innan GSÍ er heimil þátttaka.
Unglingamót – Mót þar sem einugis unglingum 18 ára og yngri er heimil þátttaka.
Kvennamót – Þar sem einungis kvenfólki er heimil þátttaka
Öldungamót – Þar sem einungis eldri kylfingum er heimil þátttaka miðað við ákveðin aldurskilyrði.

Þessum mótum er síðan hægt að skipta í innanfélags eða opin mót eftir vali mótanefndar klúbbsins. Á Urriðavelli eru svo ýmis boðsmót þar sem fyrirtæki leigja golfvöllinn og bjóða sínum viðksiptavinum enda völlurinn einn sá vinsælasti á landinu vegna sinnar góðu aðstöðu og þeirrar þjónustu sem veitt er á vellinum.

 

Fyrirkomulag móta getur síðan verið mismunandi. Þar má helst nefna:

Höggleiksmót
Algengasta leikaðferð nútímans í keppnisgolfi er án efa höggleikur. Högg keppenda eru einfaldlega talin í samræmi við golfreglur. Sá kylfingur sem leikur á fæstum höggum á þeim fjölda brauta sem fyrirfram skilgreindur hefur verið í viðkomandi móti fer með sigur af hólmi. Venja er að miða árangur keppenda við par vallarins og er þá talað um að viðkomandi sé á pari, undir því eða yfir. Höggleikur er oft leikinn með forgjöf, þ.e. vallarforgjöf keppenda er dregin frá heildar höggafjölda kylfingsins og fæst þá út nettó skor.

Holukeppni
Í holukeppni keppa tveir kylfingar innbyrðis. Hver hola er spiluð og sá kylfingur sem fer holuna á færri höggum telst hafa unnið hana og hefur þá eins og sagt er “eina holu á andstæðinginn”. Fari svo að kylfingarnir tveir klári holuna í jafn mörgum höggum þá fellur holan og hvorugur fær stig. Holukeppni er spiluð þangað til úrslit nást á fyrirfram ákveðnum holufjölda, yfirleitt hefðbundnum átján holu hring. Það getur þó gerst að ekki þurfi að klára holurnar allar þar sem annar kylfingurinn hefur náð fleiri holum á andstæðingin en eru eftir af hringnum.

Punktakeppni
Golfleikur með punktafyrirkomulagi fer þannig fram að gefnir eru punktar fyrir árangur kylfinga á hverri holu fyrir sig. Fari kylfingur á skolla fær hann einn punkt, tveir fást fyrir par, þrír fyrir fugl og svo framvegis. Sá sem hlýtur flesta punkta telst sigurvegari. Langalgengast er að punktafyrirkomulag sé miðað við forgjöf og er þá miðað við nettóskor leikmanns á hverri holu, þ.e. leikmaður með háa forgjöf hefur fleiri högg til að ná „sínu pari“ og fá þar með tvo punkta fyrir. Sem dæmi má taka að leikmaður með 18 í vallarforgjöf fær eitt auka högg á hverja holu og er því „hans par“ skolli á öllum holum vallarins. Punktakeppni hefur því þann kost að gera misfærum kylfingum kost á að keppa sín á milli á jafnréttisgrundvelli.

Texas Scramble
Þegar Texas Scramble er leikið leika tveir kylfingar saman í liði. Fer leikurinn þannig fram að báðir slá högg af teig, síðan velja þeir þann bolta sem þeim þykir vera í betri stöðu og slá báðir boltann þaðan. Sá sem á þann bolta sem kylfingunum þykir lakari færir því sinn bolta að bolta félaga síns. Sá sem átti betri boltann slær yfirleitt á undan og hinn á eftir. Eftir þau högg endurtekur ferlið sig allt þangað til boltinn er kominn í holuna. Texas Scramble er oft spilað með forgjöf og er reglan yfirleitt sú að sameiginleg vallarforgjöf kylfinganna er tekin saman og deilt í hana með tölunni fimm.

Betri bolti
Eins og í Texas Scramble eru tveir kylfingar saman í liði þegar betri bolti er leikinn. Þá leika báðir leikmennirnir sínum bolta frá teig að holu eins og um höggleik væri að ræða. Höggafjöldi liðsins á hverri holu er skor þess kylfings sem fór holuna á færri höggum og er þaðan runnið heitið „betri bolti“.
Mörg önnur form golfleiks eru einnig til og hægt er að fá upplýsingar um þau í ýmsum golfhandbókum.