• 1. Object
  • 2. Object

5.8° - SSA 2.1 m/s

585 0050

Book Tee Times

Gott ástand Urriðavallar vekur eftirtekt

Annasamur júlímánuður hjá vallarstarfsmönnum

Það hefur ekki farið framhjá félögum í Golfklúbbnum Oddi að Urriðavöllur er kominn í afar gott ásigkomulag og nálgast óðum sitt allra besta form. Eftir erfiðan vetur hefur vallarstarfsmönnum tekist að koma vellinum í svipað ásigkomulag og félagar upplifuð í ágúst á síðasta ári. Þá voru flestir sammála um að völlurinn hefði líklega aldrei verið betri.

„Ég er þokkalega ánægður með stöðuna á Urriðavelli,“ segir Tryggvi Ölver Gunnarsson, vallarstjóri Urriðavallar, hógvær að vanda. Vallarstarfsmenn hafa unnið frábært starf í sumar og hafa gæði flatanna á Urriðavelli vakið sérstaka eftirtekt hjá gestum og fjölmörgum erlendum kylfingum sem hafa heimsótt völlinn í sumar.

„Flatirnar líta vel út og við getum verið sáttir með stöðuna eins og hún er í dag. Við höfum átt í vandræðum með sjöttu flötina í ár. Það er helst erfið staðsetning sem veldur okkur vandræðum. E.t.v. þurfum við að finna lausn til lengri tíma hvað þessa flöt varðar. Okkur hefur gengið betur með aðrar flatir vallarins sem eru flestar orðnar mjög góðar.“

Tryggvi Ölver Gunnarsson 2015

Lærðu mikið af Evrópumótinu

Evrópumót kvennalandsliða fór fram á Urriðavelli í byrjun júlí. Mótið þótti takast afar vel og voru keppendur mjög ánægðir með upplifun sína af Urriðavelli og af því að spila á Íslandi í þessu sterka Evrópumóti þar sem margir af bestu áhugakvenkylfingar Evrópu tóku þátt.

„Þetta var mikill heiður fyrir okkur og mjög skemmtilegt verkefni. Auðvitað var mikið álag á okkur bæði fyrir mótið og meðan á því stóð. Þetta var hins vegar mikil upplifun og við lærðum margt nýtt af þessu verkefni,“ segir Tryggvi.

„Við héldum mun stífari rútínu en vanalega og völlurinn var sleginn öðruvísi en við gerum frá degi til dags. Við lærðum einnig mikið hvað varðar uppsetningu á vellinum. Það kom inn önnur hugsun um staðla sem er veganesti sem við tökum með okkur inn í framtíðina.“

13653057_1074083939337480_3135538867007524676_o

Sáning framundan

Næstu verkefni á Urriðavelli er að sá í svæði sem kólu í vetur. Tryggvi er bjartsýnn á að slæm svæði munu loka sér að mestu. Einnig hafa vallarstarfsmenn sett meiri kraft í að laga til Ljúfling til sem varð illa úti í vetur eftir að legið undir ís í allan vetur.

„Okkur þykir mjög vænt um Ljúfling og viljum halda sömu gæðum þar og á Urriðavelli. Verkefni ársins í ár urðu til þess að við þurftum að forgangsraða við að koma Urriðavelli í gott ásigkomulag fyrir EM. Við höfum mikinn metntað fyrir því að halda uppi góðum gæðum á Ljúflingi. Við höfum t.d. sett aukinn kraft í því að laga flatirnar á Ljúflingi og það verkefni gengur vel. Vonandi tekst okkur að laga slæm svæði á Ljúflingi og á Urriðavelli með sáningu í ágúst,“ segir Tryggvi Ölver.

13641073_1074083249337549_966997329631075832_o

Reynslan gerir gæfumuninn

Sú þekking sem býr innan vallarstarfsmann spilar lykilþátt í því hversu vel hefur tekist til við að koma Urriðavelli í frábært ásigkomulag ár eftir ár þrátt fyrir að völlurinn standi nokkuð hátt yfir sjávarmáli. Tryggvi er á sínu sextánda starfsári hjá Golfklúbbnum Oddi og aðrir lykilstarfsmenn hafa starfað hjá klúbbnum í töluverðan tíma.

„Þetta er samspil margra þátta en það hjálpar okkur auðvitað að við erum með reynslumikið starfsfólk í bland við unga og efnilega vallarstarfsmenn. Það er auðvitað margt sem við viljum bæta en til þess að geta gert það þá þurfum við einfaldlega fleiri vallarstarfsmenn. Starfsmannafjöldinn á íslenskum golfvöllum er í engu samræmi við hvernig þetta er á stórum golfvöllum erlendis og raunar ekki hægt að bera það saman,“ segir Tryggvi og tekur dæmi.

„Í dag erum við með hraðann á flötunum í 8 – 8,5 á stimp. Það væri frábært að geta fært hraðann upp í 9 til 9,5 á stimp líkt og við vorum með í Evrópumótinu. Til þess að ná öllum flötum í slíkan hraða þá þurfum við einfaldlega fleira starfsfólk. Við vinnum með það sem við höfum og reynum að gera það eins vel og við getum.“

Félagsmenn og kylfingar eru hvattir við að hjálpa til við halda vellinum í góðu ásigkomulagi með því að laga kylfu- og boltaför á flötum. „Flatirnar eru tiltölulegar mjúkar og boltaförin eru fljót að hrannast upp ef kylfingar laga ekki til á eftir sig. Það breytir öllu fyrir okkur að halda boltaförum í lágmarki á flötunum. Það skilar sér einfaldlega í meiri upplifun fyrir kylfinga þegar upp er staðið,“ sagði Tryggvi Ölver Gunnarsson, vallarstjóri á Urriðavelli.

 

13558745_1072053906207150_7992591973648897067_o

< Fleiri fréttir