• 1. Object
  • 2. Object

13.2° - ASA 5.7 m/s

585 0050

Book Tee Times

Laufey Sigurðardóttir – valin sjálfboðaliði ársins 2023 hjá golfhreyfingunni.

Laufey Sigurðardóttir frá Golfklúbbnum Oddi er sjálfboðaliði ársins 2023 hjá Golfsambandi Íslands. Laufey fékk viðurkenningu þess efnis á golfþingi Golfsambands Íslands sem fram fór helgina 10 – 11. Nóvember á Grand Hótel Reykjavík. Þetta er í 10. sinn sem þessi viðurkenning er afhent hjá Golfsambandi Íslands.

Laufey hefur frá sínum fyrstu árum í Golfklúbbnum Oddi sýnt mikinn áhuga á félagsstörfum og starfaði lengi í kvennanefnd GO og svo síðar í mótanefnd GO þar sem hún hefur á síðustu árum sinnt formennsku.  Árið 2016 tók hún ásamt ríflega 100 sjálfboðaliðum þátt í sjálfboðaliðastarfi á Evrópumóti kvennalandsliða sem haldið var á Urriðavelli. Laufey lét sér ekki nægja að taka eina og eina vakt þar heldur var hún þar alla daga frá morgni til kvölds.

Laufey hefur síðustu tvö ár farið fyrir sjálfboðaliðum á tveimur stórmótum sem Golfklúbburinn Oddur hefur hýst fyrir golfhreyfinguna.  Árið 2022 var Evrópumót stúlknalandsliða haldið á Urriðavelli, þar sem Laufey sá um að skipuleggja starf sjálfboðaliða GO á mótinu. Hvort sem það voru forverðir, þjónusta við keppendur eða hvað það nú var, alltaf var hún tilbúin og fékk áhugasamt fólk í verkefnið.  Á þessu ári sá hún um skipulag sjálfboðaliða GO á Íslandsmótinu í golfi og þegar við bættist að hugsa um þann mikla fjölda áhorfenda sem kom til að fylgjast með keppendum, var það tæklað með frábæru skipulagi. 

Á báðum þessum mótum voru allt að 70 manns að störfum á vellinum og um 100 manns í heildina og mikið verk að gæta þess að allir fengju verkefni við hæfi svo að keppendur gætu notið sín við keppnina og að umhverfi og aðgengi áhorfenda væri sem best.

Það er mikil gæfa fyrir Golfklúbbinn Odd og golfhreyfinguna að hafa fólk eins og Laufey innan sinna raða sem eru tilbúin að gefa mikið af tíma og orku til að vinna hin ýmsu störf án sérstaks endurgjalds.  Fólk sem getur fengið með sér, her fólks, sem hefur lítil tengsl við keppnisgolf til að standa vaktina og sjá til þess að okkar fremsta fólk geti uppskorið líkt og við sáum nú í sumar. Við hlið Laufeyar hefur hennar eiginmaður Bjarki staðið í öllum þessum verkefnum og því má segja að við í Golfklúbbnum Oddi höfum í raun notið góðs af því að fá tvo fyrir einn þegar Laufey hefur tekið að sér sín störf og færum við honum að sjálfsögðu miklar þakkir fyrir hans framlag einnig.

Takk fyrir okkur Laufey og Bjarki og innilega til hamingju með valið Laufey.

< Fleiri fréttir