• 1. Object
  • 2. Object

3.6° - S 5.9 m/s

585 0050

Book Tee Times

Sumarávarp formanns

Það styttist í sumarið og formaður GO ákvað að flytja stutt ávarp sem kom í stað hefðbundins vorfundar sem við slepptum þetta árið. Ávarp formanns var sent út í tölvupósti til félagsmanna þar sem farið var yfir stöðu mála á Urriðavelli og opnun vallarins. Hér fyrir neðan er ávarpið í streymi á You-tube og einnig í textaformi en við hvetjum ykkur til að hlusta á Kára eins og við höfum hlustað á Víði.

Ávarp formanns

Kæru félagar. Gleðilegt sumar.

Það er sérstakt að geta ekki boðað ykkur til fundar að vori eins og hefðin segir til um en nú eru sérstakir tímar og við golfarar verðum að aðlaga okkur, til að geta glaðst saman í sumar við það að leika golf.  Því nú er farið að hylla í að við getum farið að leika okkur, hér á golfvellinum.  Eins og við vitum hefur þessi vetur verið mjög undarlegur fyrir þjóðina, bæði veðurfarslega og heilsufarslega. Veturinn hefur haldið náttúrunni í gíslingu á meðan við biðum af okkur Covid og er ekki alveg tilbúin að leyfa okkur að hefja venjulegt spil líkt og þríeykið sem bað okkur að bíða aðeins.  

En sólin skín, gráður á celsius verða fleiri og vellirnir eru að verða grænir þó þeir komi hægt undan vetri.  Eða eins og vallarstjórinn okkar sagði að þá verður opnun undir meðallagi síðustu ára.  Þeir sem hafa spilað vetrargolf hafa orðið varir við mikla frostlyftingu á sumum brautum. Flatir eru almennt í fínu ástandi miðað við árstíma en þó styttra komnar en síðasta sumar.   Við byrjuðum vorið með töluverðum takmörkunum á starfseminni vegna Covid en nú er allt að komast á fullt og starfsemin á vellinum komin í eðlilegt horf, allir starfsmenn mættir til starfa og á fullu að gera klárt.  Í byrjun sumars munum við getað leikið golf nokkuð óhindrað en þó með aðeins breyttu sniði.  Ekki verður hægt að snerta flaggstangir, hrífur verða fjarlægðar úr glompum og boltahreinsar verða fjarlægðir. Allt er þetta gert til að fækka sameiginlegum snertiflötum á meðan við leifum veirunni að ganga yfir  Ég bið ykkur að kynna ykkur vel leiðbeiningar um golfleik á tímum covid  þegar kemur að því að við opnum, en þær má finna inni á golf.is 

Þegar félagar klúbbsins byrja á því að spila völlinn munu þeir verða varir við ýmislegt sem vallarstarfsmenn hafa tekið sér fyrir hendur frá því í haust þegar völlurinn lokaði.  Fyrst ber að telja að glompa við 8 flötina hefur verið endurhönnuð og færð nokkuð frá flötinni í átt að teignum. Gamla glompan var farin að kroppa í flötina og því var nauðsynlegt að færa hana. Verður sárið þar snyrt og tyrft við fyrsta tækifæri þegar við fáum gott torf. Verið er að vinna þessa dagana að því að bæta öryggi kylfinga við fremsta teig á 12. Braut.  Búið er að leggja gervigras á göngustíg frá 14 flöt, meðfram 15 braut og að 16 teig.  Einnig hefur einn góður félagi okkar unnið að snyrtingu á skógi við 17 flöt og snyrt birkitré við 16 flöt auk fleiri verkefna.  Þá hefur vallarnefnd ákveðið að fjölga „rauðmerktum“ svæðum á vellinum, aðallega þar sem lúpína og hraun geta gleypt bolta og er þessi breyting hugsuð til að flýta leik.  Merkingar þar að lútandi verða settar upp nú í maí eftir að völlurinn opnar. Það er gæfa Golfkúbbsins Odds að haldast vel á starfsfólki og því verða það kunnugleg andlit sem mæta ykkur í sumar.

Eins og margir félagar hafa orðið varir við hefur verið tekið í notkun nýtt bókunarkerfi á rástímum, Golfbox.  Eins og við var að búast hafa verið nokkrir byrjunarörðugleikar við innleiðinguna.  Hún skýrist að mestu af því að allir eru að læra á kerfið á sama tíma, bæði starfsfólk golfklúbba og kylfingar sjálfir. Við hvetjum okkar félagsmenn að skrá sig inn í kerfið sem fyrst til að koma í veg fyrir pirring seinna, þegar mest liggur á að bóka sig á rástíma.  Leiðbeiningar um hvernig á að skrá sig eru á heimasíðu okkar auk þess sem leiðbeiningar voru sendar í fréttabréfi.  Að sjálfsögðu er starfsfólk í golfskála svo tilbúið að aðstoða eftir bestu getu þegar allar bjargir eru bannaðar en stundum er betra að lesa leiðbeiningarnar fyrst, hvort sem um er að ræða skáp frá IKEA eða að hefja notkun golfbox.

Þótt gróðursetningardagur okkar og Oddfellow frestist fram á haust munum við standa að hreinsunardegi núna á laugardaginn 9. maí.  Við munum byrja kl. 10 og skipta okkur upp og „plokka“ völlinn og nánasta umhverfi í tvo tíma.  Stjórn og starfsmenn mun svo standa við grillið að loknu verki og grilla pulsur í þreytta félaga. En þeir sem mæta og hjálpa okkur að gera umhverfið fallegra, hafa tækifæri til að finna golfboltann sem þeir leituðu svo lengi að í fyrra og ekki síður að njóta forgangs í opnunarmót Urriðavallar.

En að þessu sögðu að þá tilkynni ég að opnun Urriðavallar og Ljúflings, hefst með opnunarmótinu laugardaginn 16. Maí kl. 10.  Almennar rástímabókanir hefjast svo eftir mótið.

Eftir næstu helgi verður vetrarspili lokað svo vallarstarfsmenn geti tekið niður vetrarvöllinn og byrjað að undirbúa opnun.  Æfingabásarnir okkar eru opnir og þá er tilvalið að heimsækja vinavelli sem margir hverjir eru opnir á meðan við erum að undirbúa opnun. 

Ég vil að lokum þakka ykkur þolinmæðina nú í vetur þegar allt var hér lokað og læst.  Þetta var skrítin tíð en hér erum við í upphafi sumars, að losna úr álögum veirunnar með gleði og þó nokkurn spenningi að hefja leik.

Ég hlakka til að sjá ykkur frísk, fersk og og til fyrirmyndar á golfvellinum. Gleðilegt golf-sumar

< Fleiri fréttir