• 1. Object
  • 2. Object

4.9° - SSA 1.6 m/s

585 0050

Book Tee Times

Afmælisboð golfklúbbsins Odds

Það var fjölmenni í golfskálanum á Urriðavelli þegar haldið var formlegt afmælisboð í tilefni af 25 ára afmæli Golfklúbbsins Odds á frídegi verslunarmanna. Þorvaldur Þorsteinsson ávarpaði gesti og til máls tóku Elín Hrönn Ólafsdóttir formaður GO, Óskar G. Sigurðsson fyrsti formaður Golfklúbbsins Odds, Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ og Júlíus Rafnsson fyrrum forseti GSÍ.

Elín Hrönn veitti fyrir hönd Golfklúbbsins þeim Svavari Geir Svavarsyni og Inga Þór Hermannssyni gullmerki GO fyrir þeirra störf á liðnum árum. Í máli sínu fór hún yfir það að Svavar Geir hefði verið hér nánast frá stofnun klúbbsins og verið einn af þeim fyrstu sem skráðir voru í GO án aðildar að Oddfellow reglunni. Svavar hefur verið í stjórn klúbbsins lengur en nokkur annar og var fyrst kosinn í stjórn starfsárið 1995-1996 ásamt því að sitja svo í stjórn frá árunum 2006 – 2017 eða í alls 12 starfsár af 25 í sögu klúbbsins. Svavar starfar í dag fyrir klúbbinn sem skrifstofu og markaðsstjóri. Elín Hrönn fór einnig yfir sögu Inga Þórs Hermannsonar sem sat sem formaður golfklúbbsins Odds frá árinu 2009 – 2016 eða í alls 7 starfsár eða lengur en nokkur annar formaður. Ingi Þór leiddi miklar umbreytingar í sinni stjórnartíð þar sem áhersla var lögð á það að bæta rekstur klúbbsins og breyta ímynd og ásýnd hans. Í stjórnartíð Inga var mikil efling í félagsstarfi  ásamt því að ímynd og áhersla golfklúbbsins fór að snúast um golfklúbbinn sem íþróttafélag. Þeim félögum var þakkað fyrir sitt starf. 

Óskar G. Sigurðsson færði golfklúbbnum gjafir en í máli sínu fór hann létt yfir sína sögu og aðkoma að starfi og upphafsárum golfklúbbsins. 

Haukur Örn færði golfklúbbnum árnaðaróskir frá Golfsambandinu.

Júlíus Rafnsson færði svo golfklúbbnum fallegan og stóran hátíðarfána að gjöf á standi sem mun eflaust fá að njóta sín um ókomin ár. 

   

 

 

 

 

< Fleiri fréttir