• 1. Object
  • 2. Object

10.8° - NV 1.1 m/s

585 0050

Book Tee Times

Golfæfingar og þjálfunaráætlun fyrir almenna félaga GO

Ákveðið hefur verið að brydda uppá þeirri nýjung að bjóða almennum kylfingum í Golfklúbbnum Oddi að stunda reglulegar golfæfingar og þjálfun á komandi sumri. Æfingarnar standa öllum opnar en þær eru miðaðar að almennum félagsmönnum sem vilja undirbúa sig vel fyrir komandi golfvertíð á skipulagðan hátt. Þó skal tekið fram að ekki er um eiginlega kennslu að ræða, heldur æfingar undir leiðsögn kennara. Æfingarnar eru uppbyggðar fyrir kylfinga sem eru komnir eitthvað áleiðis í golfi en ekki byrjendur.

 

Allir, konur og karlar, eru hvattir til að taka þátt í þessari tilraun okkar og ef vel tekst til er aldrei að vita nema þetta geti orðið árlegt.

 

Skráning með tölvupósti á skrifstofa@oddur.is.

 

Hugmynd: Golfklúbburinn Oddur, í samvinnu við MPgolf, býður félögum í Golfklúbbnum Oddi að taka þátt í skipulögðum golfæfingum undir leiðsögn golfkennara. Einnig verður útbúin þjálfunaráætlun fyrir kylfinga að fylgja á milli æfinga.

 

Tilgangur: Gera kylfingum, öðrum en afrekskylfingum, kleift að æfa golf með reglubundnum hætti í þeim tilgangi að bæta leik sinn.
Ekki er um eiginlega kennslu að ræða heldur skipulagðar æfingar undir leiðsögn kennara.

 

Fyrirkomulag og kostnaður:
Æfingar hefjast fimmtudaginn 28. maí og eru vikulega.
Tekið er hlé meðan Meistaramót GO fer fram í byrjun júlí, eða frá 5. – 11. júlí.
Síðasta æfing fyrir meistaramót er 2. júlí og æfingar hefjast aftur fimmtudaginn 16. júlí.
Eiginlegir æfingatímar eru 11.

 

Ætlunin er að bjóða val um æfingatíma, annarsvegar í hádeginu frá kl. 12:00 til 13:00 og hinsvegar síðdegis kl. 17:30. Endanleg ákvörðun um tímasetningu fer eftir þátttöku. Þátttakendur fá í hendur æfingaáætlun sem þeir síðan fylgja á milli æfinga. Æfingaboltar eru fríir fyrir þátttakendur á æfingum. Þátttakendum verður boðinn sérstakur afsláttur af veitingum í golfskála á æfingadögum.
Þátttökugjald er kr. 27.500,- og greiðist áður en æfingar hefjast.

 

Æfinga og þjálfunaráætlun:
28. maí – Æfing 1:
Hittast, fara yfir tímabilið
Áherslur á æfingum kynntar.  Markmiðsetning hvers og eins.

 

4. júní – Æfing 2:
Pútt, lykilatriði og æfingar.

 

11. júní – Æfing 3.
Vipp, lykilatriði og æfingar.

 

18. júní – Æfing 4.
Fleyghögg, lykilatriði og æfingar.

 

25. júní – Æfing 5.
Sveiflan, lykilatriði og æfingar.

 

2. júli – Æfing 6.
Sveiflan og teighöggin, lykilatriði og æfingar.

 

Hlé vegna Meistaramóts GO

 

16. júlí – Æfing 7.
Sveiflan og teighöggin, æfingar og leikskipulag.

 

23. júlí – Æfing 8.
Vippin og fleyghöggin, æfingar.

 

30. júlí – Æfing 9.
Vippin og fleyghöggin, æfingar og leikskipulag.

 

6. ágúst – Æfing 10.
Púttin, æfingar og leikskipulag

 

13. ágúst – Æfing 11.
Tímabil yfirfarið, markmið skoðuð og næstu skref.

 

Auk hinna hefðbundnu æfinga verður m.a. haldið á einhvern golfvöll í nágrenni höfuðborgarinnar og æfingahópurinn spilar þar. Rástímar verða samliggjandi og fer eftir þátttöku hvernig það verður útfært frekar. Hugsanlega verður hægt að hafa lítið innbyrðis golfmót. Þátttakendur greiða sjálfir flatargjöld. Einnig verður haldin stutt kynning eftir einhverja æfinguna á hinum ólíku golfboltum á markaðinum, hvernig þeir eru hannaðir fyrir mismunandi golfleik kylfinga og mismunandi aðstæður. Hvaða golfbolti hentar hverjum kylfingi. Eflaust ber ýmislegt annað á góma.

 

Frekari tímasetning á þessum viðburðum verður ákveðin síðar. Þetta er gullið tækifæri fyrir þá kylfinga sem vilja bæta golfleikinn!
Þeir kylfingar sem áhuga hafa á að taka þátt í ofangreindri æfingaáætlun eru vinsamlegast beðnir um að senda tölvupóst á netfangið skrifstofa@oddur.is

 

Vinsamlegast setjið í efnislínu póstsins; “Almennar æfingar” og í póstinum þarf að koma fram; nafn, núverandi forgjöf og ósk um æfingatíma.

Dæmi:
Efni: Almennar æfingar
Undirritaður óskar eftir að taka þátt í fyrirhuguðum æfingum fyrir almenna kylfinga.

 

Jón Jónsson
Forgjöf: 19,0
Æfingatími 17:30

 

Kveðja
Jón Jónsson

 

< Fleiri fréttir