• 1. Object
  • 2. Object

11° - A 4 m/sek

565 9092

Léttur pistill úr golfferð GO til LUMINE

Eftir erfitt sumar veðurfarslega var mikil spenna í stórum hópi félagsmanna sem stefndu á fjölmennustu afmælisgolfferð í sögu GO og þó víða væri leitað. Ferðinni var að þessu sinni heitið á LUMINE golfsvæðið sem staðsett er við bæinn Salou á Spáni. Á svæðinu sem rómað er fyrir góð gæði allt árið og hefur þess vegna verið valið fyrir lokaúrtökumótið fyrir þá sem eru að reyna að komast á Evrópumótaröðina eru tveir flottir en nokkuð ólíkir 18 holu golfvellir (Lakes og Hills) ásamt því að 9 holu golfperla (Ruins) liggur á milli þeirra sem nýttist ferðalöngum vel þegar leika átti meira en 18 holur á dag. Í kringum Lumine golfsvæðið og ströndina við La Pineda þar sem hópurinn gisti mátti finna fjölda veitingastaða og hægt var að fara í leigubílum í stuttar ferðir ef ferðalangar vildu meiri fjölbreytni í mat og umhverfi.

 

Strax fyrsta kvöldið mátti finna smá óróa í hópnum hvað varðaði hótelið (Palas Pineda ) sem hópurinn var á en matsalur hótelsins var gífurlega stór og erfitt að eiga þar notarlega stund enda þar mikið ys og læti og birtan í salnum eins og á skurðarborði á Landspítalanum. Í raun voru herbergin viðunandi á spænska vísu þó vissulega hafi þau verið misjöfn eins og gerist og gengur. Hópurinn var í grunninn í hliðarbyggingu og þar ekkert annað en lítil móttaka, því þurfti að sækja í matsal aðalbyggingar í morgunmat og kvöldmat í gegnum sundlaugargarðinn. Aðal samkomustaðurinn ef sitja átti saman eftir kvöldmat var á litlum bar við anddyri aðalbyggingarinnar og segja má að það hafi verið okkar félagsheimili og gaman að sjá og hitta fólkið þar á hverju kvöldi en það mátti ganga að því vísu að síðustu gestir þaðan voru félagsmenn GO. Við gefum hótelinu því svona meðaleinkun og tölum ekki meira um það. Segja má að veðrið og vellirnir sem eru nú stór hluti af því sem við erum að sækja í þegar við förum erlendis í golfferðir hafi staðið alveg undir væntingum. Vissulega hafði mikil rigning á fyrsta leikdegi í um tvær klukkustundir nokkur áhrif á næstu golfdaga og þann dag hjá hluta af hópnum en margir fögnuðu því frekar þar sem helstu áhrifanna gætti í glompum sem teknar voru úr leik það sem eftir lifði golfferðar og skorið því örlítið betra en búast mátti ella við það sem eftir lifði ferðarinnar. Veðrið það sem eftir lifði ferðar var svo stöðugt og gott, fengum eina hellidempu eina kvöldstund sem hélt glompum úr leik og hafði nokkuð mikil áhrif á leik á Lakes vellinum en hann stóð þá bara betur undir nafni.

   
Þegar koma á 96 manns í golf á tveimur völlum þá var fyrirséð að skipulag á golfinu sjálfu þyrfti að vera nokkuð stíft svo allt gengi upp og ekki bætti svo úr skák þegar bæta þurfti svo við öllum rútuferðunum bæði á vellina og heim. Það var alveg ljóst strax á fyrsta degi að það var erfitt viðureignar en ekki óyfirstíganlegt og úr varð í raun að hópurinn stóð sig alveg gífurlega vel í því að fylgja þessu skipulagi sem breyttist svo á hverjum degi enda reynt að verða við óskum þeirra sem vildu spila saman eins og þær komu fram hverju sinni og því þurfti að huga að breytingum á rútuferðum, skiptingu milli valla og að passa aðrar óskir samhliða hverri hreyfingu. Verkefnið var nokkuð umfangsmikið og mörg handtök unnin milli golfs og kvöldmatar hjá fararstjórum og undirrituðum til að koma öllum upplýsingum á framfæri með sem mestum fyrirvara fyrir næsta dag en þau verkefni voru kláruð og því svo skolað niður með góðu rauðvíni og smá rommi.

Það var strax ákveðið áður en farið var út að brjóta upp ferðina með því að halda glæsilega afmælisveislu og það kvöld fór hópurinn enn á ný í rútur og haldið var í strandklúbb LUMINE golfsvæðisins sem er afar glæsilegt svæði og fallegur salur með útsýni út á sjóinn tók á móti okkar fólki. Góður rómur var af glæsilegum 6 rétta matseðli sem borinn var fram, veitt voru verðlaun fyrir tveggja daga golfmót sem fram fór á golfsvæðum Lumine og Júlíus Geir fararstjóri tók upp gítarinn og sló heldur betur í gegn þegar hann lék bæði yfir borðhaldi og þegar dansskórnir voru teknir fram og úr varð fínasta skemmtun. Kvöldið endaði svo með skipulegri rútuferð og við hefðum svo sannarlega viljað bæta við fleiri rútuferðum ef þær hefðu leitt okkur í svona skemmtilegt félagslegt umhverfi og höfum það í huga í næstu ferð.

Til að fagna einhverjum verðum við að nefna sigurvegara afmælismótsins í karla og kvennaflokki en þar stóðu upp úr hin mögnuðu Jón Ævarr Erlingsson og Sólveig Guðmundsdóttir sem rökuðu inn flestum punktum í sínum flokki. Fleiri voru svo verðlaunaðir í verðlaunaafhendingu sem leidd var áfram af formanni mótanefndar með aðstoð okkar forystufólks. Það kemur ýmislegt upp þegar svona stór hópur er á ferð og einn af okkar ferðafélögum varð fyrir því óláni að handleggsbrotna sem er almennt verulega óráðlegt í golfferð, þarna var á ferðinni Sigríður Björnsdóttir og viðbrögð félagsmanna og þeirra sem stóðu að ferðinni voru góð og sérstaklega mátti taka eftir góðum viðbrögðum frá starfsmönnum Lumine golfvallarins sem sendu strax mann á vettvang sem síðan fylgdi Siggu alla leið á spítalann ásamt því að hennar vinkona Helga og fararstjóri TASPORT fylgdu einnig með og því gekk það verkefni alveg eins og í sögu. Sigga sjálf var einstaklega brosmild og glöð þó hún hafi verið reið sjálfri sér í stutta stund eftir slysið, þegar hún lág í golfbílnum og beið eftir að sjúkrabíllinn kæmi var hún spurð hvort hún væri nokkuð með ofnæmi fyrir einhverju og hún var fljót til svara og sagði, “eina sem ég er með ofnæmi fyrir eru karlmenn” og allir brostu í kringum hana. Sigga var svo komin á ról strax næsta dag og var svo farin að ferðast um golfvellina svona sem sérstakur kaddý og til að veita öðrum skemmtilegan félagsskap. Takk Sigga fyrir að gleðja aðra með jákvæðni og brosi þó á móti hafi blásið.

Eins og í öllum ferðum þá enda þær með heimferð og á heimferðardegi þá rigndi og þeir einu sem tóku það á sig var sá hluti hópsins sem hafði framlengt um nokkra daga og þökkum við þeim vissulega fyrir að fórna sér í það en skiljum vel að það hefði verið skemmtilegra að sleppa því og vonum að þetta komi aldrei fyrir aftur. Í niðurlag í þessari stuttu ferðalýsingu vill ég koma á framfæri þakklæti til ykkar sem tókuð þátt í afmælisgolfferðinni, einnig þökkum við fyrir þær athugasemdir og hrós sem okkur bárust að ferð lokinni, við lærðum heilmikið af þessu og ég er þess fullviss að við munum bæði gera betur og eflaust halda afmælisveislu öll kvöld ef þess þarf til að auka stemminguna félagslega. Við þökkum fararstjórum TASPORT fyrir þeirra framlag en þar stóðu vaktina Júlíus Geir, Friðrik og Ingimar.

Með golfkveðju, Svavar Geir rútustjóri

 

< Fleiri fréttir