
31/08/2025
Prinsar eru sigurvegarar Collab mótaraðarinnar í ár og segja má að þeir hafi unnið með yfirburðum þetta árið. Alls skráðu 37 lið sig til þátttöku í mótaröðinni, 33 af þeim léku í þremur mótum eða fleiri en alls voru mótin 6 þar sem þrjú bestu mótin töldu í heildar stigakeppni.
Það var mikil spenna fyrir lokaumferðina sem leikin var með shootout fyrirkomulagi, 128 keppendur mættir til leiks, tvöföld ræsing á öllum holum nema fjórum og bæði veður, leikhraði og stemming í þessu lokamóti var til háborinnar fyrirmyndar. Margir höfðu á orði að þetta ár færi í sögubækurnar hvað veður varðar í þessari mótaröð sem hefur verið þekkt fyrir það í gegnum árin að henda kylfingum út á völl í miður skemmtilegt veður hvort sem það er rok eða rigning eða hvort tveggja. Við fögnum þessari veðursæld í ár.
Prinsarnir áttu virkilega flott lokamót, mótið var tvöfalt, hefðbundin punktakeppni og besta skor liðs á holu. Prinsarnir höfnuðu í 2. sæti í punktakeppni með 77 punkta hjá sínum bestu tveimur leikmönnum en lið Oddaverja marði sigur í mótinu með 78 punkta þar sem Hjálmar Jónsson og Þórður Möller áttu flottan dag og sveifluðu liði sínu með góðri spilamennsku úr 9. sæti upp í 2. sæti í heildar stigakeppninni, alvöru sveifla þar. Til að kóróna góðan dag hjá Prinsunum þá raðaðist skor leikmanna liðsins einstaklega vel saman og punktaskor þeirra í 6. mótinu var best allra liða eða 55 punktar, mörg lið fylgdu þétt í kjölfarið eins og Golfbitches með 54 punkta og Sex Urriðar með 53 en þar sem Prinsarnir nældu sér í sigur í þessu móti bættu þeir 1500 stigum í hattinn sinn við þau 2400 sem voru þeirra bestu skor í öðrum mótum og enduðu því sem öruggir sigurvegarar með 3900 stig. Oddaverjar sem nældu sér eins og áður sagði í 2. sætið enduðu með 3315 stig og lið Míron fylgdi þeim fast á eftir með 3277 stig í þriðja sæti.
Við óskum Prinsunum innilega til hamingju með sigurinn og þökkum af heilum hug öllum þeim liðum sem tóku þátt í ár.
Það er visslega ekki hægt að standa að svona mótaröð án góðra styrktaraðila og í ár viljum við sérstaklega þakka neðangreindum fyrirtækjum sem öll lögðu mikið á lóðarskálina svo þyngd verðlauna fór vel yfir 3.000.000.-
ÖLGERÐIN, BLÁA LÓNIÐ, HÚSGAGNAHÖLLIN, HÓTEL HAMAR, AMERICAN BAR, ASKUR, MYNDFORM, KAFFIVAGNINN, EVEREST, WOLT, BEIMPORT, ÖRNINN GOLF, ARTO (LEONARD OG GALLERIA), STJÖRNSNAKK, NÓI SÍRÍUS, TE OG KAFFI, HRINGIÐAN, SAFFRAN, PÍTAN, SPORTHÚSIÐ og fl.
Hér eru úrslit í mótinu
úrslit collab 2025