24/10/2025

Eins og félagsmönnum flestum er kunnugt um eru breytingar í farvatninu varðandi golfkennslu félagsmanna GO um komandi mánaðarmót okt/nóv 2025 þegar Phill og Röggi hætta formlega störfum sem golfkennarar GO. Leiðir þeirra lágu hér fyrst saman árið 2012 við golfkennslu en Phill Hunter hóf störf hjá Golfklúbbnum Oddi árið 2009 þegar hann ásamt Magnúsi Birgissyni og Erlu Þorsteinsdóttur tóku við golfkennslu á Urriðavelli undir formerkjum MP Golf. Árið 2012 gekk Rögnvaldur Magnússon inn í það samstarf ásamt Andreu Ásgrímsdóttur og starfaði sá hópur saman til 2016 þegar Magnús og Andrea fóru í önnur störf. Árið 2016 hófu þeir félagar Röggi og Phill störf saman undir formerkjum Golf Akdemíu Odds sem starfað hefur hér síðan þá.
Þeir félagar Rögnvaldur og Phill hafa því staðið vaktina hér lengi, Phill í 17 ár og Rögnvaldur í 14 ár og eiga þeir félagar þátt í golfsveiflu hundruða kylfinga innan klúbbs sem utan og erlendis eflaust líka ef við leitum víðar. Bæði Rögnvaldur og Phill tóku virkan þátt í keppnum fyrir golfklúbbinn frá upphafi og Rögnvaldur á 9 klúbbmeistaratitla í safninu sínu svo þeir hafa sannarlega sett svip sinn á starfið hér í gegnum árin.
Það er sannarlega með söknuði sem við færum þeim innilegar kveðjur fyrir áralangt samstarf og við óskum þeim velfarnaðar á nýjum vígstöðvum.
Golfklúbburinn Oddur mun auglýsa eftir nýjum golfkennurum næstu daga sem taka eiga við keflinu hér varðandi kennslu fyrir félagsmenn.
Látum hér nokkrar myndir fylgja með til minninga um liðin ár og þökkum þeim félögum enn og aftur fyrir samstarfið.