02/12/2025

Skv. auglýsingu skal kosið til eftirfarandi embætta skv. lögum.
– formanns til eins árs
– tveggja stjórnarmanna til tveggja ára
– tveggja varamanna til eins árs
Eitt framboð barst í embætti formanns frá sitjandi formanni svo sjálfkjörið er í það embætti.
Fimm framboð bárust í stjórn þar sem kjósa skal tvo til tveggja ára.
Þrjú framboð bárust í embætti varamanna þar sem kjósa skal tvo til eins árs.
Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér frambjóðendur hér fyrir neðan og mæta á aðalfundinn.
Til formanns barst eitt framboð frá sitjandi formanni Kára Sölmundarsyni og því telst hann sjálfkjörinn.
Kári H. Sölmundarson
Árni Traustason
Ég gef kost á mér til aðalstjórnar, en til vara gef ég einnig kost á mér í varastjórn, Golfklúbbsins Odds og vil hér kynna stuttlega bakgrunn minn og áherslur.
Ég er fjögurra barna faðir búsettur í Kópavogi og hef verið félagi í Golfklúbbi Odds frá árinu 2008. Á þessum tíma hef ég kynnst bæði klúbbnum og samfélaginu í kringum hann mjög vel og lít á klúbbinn sem fjölskyldu sem er sífellt að stækka og dafna. Golfið er stór hluti af mínu lífi og það hefur verið ánægjulegt að sjá einn af mínum drengjum taka virkan þátt í íþróttinni og vaxa innan íþróttarinnar.
Ef mér verður treyst fyrir stjórnarsetu mun ég leggja áherslu á eftirfarandi:
1. Barna- og unglingastarfið – hjarta klúbbsins
Barna- og unglingastarfið á að vera hjarta klúbbsins og lykill að framtíð hans. Með vaxandi áhuga ungs fólks og sterku faglegu þjálfunarumhverfi vil ég vinna að því að tryggja að þetta starf fái áframhaldandi vöxt, betri aðstöðu og skýra stefnu.
2. Sterk innviðauppbygging og aðstaða fyrir alla
Með stækkun vallarins og auknum fjölda kylfinga er mikilvægt að klúbburinn sé tilbúinn til að taka á móti stærri og fjölbreyttari hópi félagsmanna. Ég vil leggja áherslu á að ákvarðanir um uppbyggingu séu faglegar, vel ígrundaðar og í takt við framtíðarsýn klúbbsins.
3. Byggja upp faglegt og öflugt þjálfunarumhverfi
Við viljum byggja upp faglegt og öflugt þjálfunarumhverfi innan klúbbsins sem styður bæði barna- og unglingastarf og aðra félagsmenn. Markmiðið er að tryggja að allir fái góða kennslu, skýra stefnu og að klúbburinn sé leiðandi í þjálfun og þróun kylfinga á öllum aldri.
4. Sterkari ímynd og tengsl út á við
Með vaxandi áhuga á golfi og bættri aðstöðu hefur GO einstakt tækifæri til að styrkja ímynd sína enn frekar. Ég vil leggja mig fram um að klúbburinn verði leiðandi í þjónustu, samskiptum og kynningarstarfi — þannig að samfélagið í kringum Odd verði enn sterkara.
Ég er tilbúinn að leggja inn tíma, kraft og áhuga í stjórnarstörf og vinna að áframhaldandi uppbyggingu sem þjónar framtíð klúbbsins og félagsmanna hans.
Ég vona að éfái traust ykkar og stuðning á komandi aðalfundi.
_____________________________________________________________________________________________________________
Kæru klúbbmeðlimir,
Ég heiti Hákon Jónsson, er 49 ára og starfa sem EPC verkefnastjóri fjárfestinga á sviði Rafveitu hjá Veitum. Ég er með master í verkefnastjórn og lauk MPM-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Ég er í sambúð með Magneu Ólafsdóttur og á tvær dætur, Önnu Margréti og Birnu. Við búum á Seltjarnarnesi. Ég gekk fyrst í Golfklúbbinn Odd árið 2005 og hef verið félagi, með hléum, allt frá þeim tíma. Kynni mín af klúbbnum hófust í gegnum góðan félaga, Svavar Geir, sem ég starfaði með á sínum tíma.
Ástæður framboðs
Ég hef tekið þá ákvörðun að bjóða mig fram til stjórnar GO þar sem ég hef mikinn metnað til að styðja við áframhaldandi uppbyggingu klúbbsins, efla starfsemina og leggja mitt af mörkum til þess að Oddur haldi áfram að vera eftirsóknarverður og framúrskarandi golfklúbbur til framtíðar.
Reynsla úr félags- og stjórnarstörfum
Ég hef áralanga reynslu af stjórnar- og nefndarstörfum, bæði úr íþrótta- og félagsstarfi sem og úr pólitískum málaflokkum. Má þar helst nefna: • 4 ár í stjórn hjólreiðadeildar Breiðabliks • 3 ár í íþrótta- og tómstundanefnd Seltjarnarnesbæjar • Stjórnarmaður hjá Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda (frá maí 2024) • Stjórnarmaður í Blóðgjafafélagi Íslands (frá vori 2024) • Varamaður í Svæðisskipulagsnefnd SSH fyrir xD á Seltjarnarnesi frá vori 2024 Þessi reynsla nýtist vel í starfi innan stjórnar GO – bæði hvað varðar samráð, ákvarðanatöku, stefnumótun og ábyrgð í rekstri klúbbsins.
Fagleg færni og reynsla sem nýtist Oddi
Í starfi mínu sem EPC verkefnastjóri ber ég ábyrgð á umfangsmiklum innviðaverkefnum. Þar tek ég þátt í allri helstu ákvarðanatökuferli – frá opinberum innkaupum og vali hönnuða og verktaka, til eftirlits, framvindustjórnunar og gæða. Þetta eru færniþættir sem nýtast sérstaklega vel fyrir klúbbinn nú þegar framundan er stórt uppbyggingar- og framkvæmdatímabil. Ég þekki vel hvernig tryggja má góða framkvæmd, rétta forgangsröðun, gagnsæi og ábyrga nýtingu fjármuna.
Framtíðarsýn mín fyrir GO
Ég lít á mögulega innkomu mína í stjórn Golfklúbbsins Odds sem tækifæri til að:
• styðja við skipulagða og markvissa uppbyggingu vallarins og aðstöðu,
• efla samfélag, starfsumhverfi og félagslíf fyrir alla,
• styrkja orðspor og ímynd klúbbsins,
• tryggja að framvinda verkefna sé fagleg, gagnsæ og í þágu félagsmanna.
Ég trúi á ábyrga stjórnarhætti, virka þátttöku félagsmanna og sterka, stefnumiðaða forystu sem byggir á trausti, fagmennsku og metnaði. Lokaorð Oddur stendur á tímamótum og framundan er mikið og spennandi uppbyggingarskeið. Tækifærin sem því fylgja eru ómetanleg – og ég er tilbúinn og reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum til að þau verði nýtt af fagmennsku og framtíðarsýn.
Ég myndi fagna tækifærinu til að vinna með ykkur öllum að því að gera frábæran klúbb enn betri.
______________________________________________________________________________________________________________
Jón S. Garðarsson
Ágætu meðlimir Golfklúbbsins Odds. Jón S Garðarsson heiti ég og býð mig fram til stjórnarsetu í Golfklúbbnum okkar til tveggja ára sem aðalmaður. Ég kom inn í stjórnina fyrir sjö árum og hef verið gjaldkeri Odds síðastliðin tvö ár. Það að vera gjaldkeri er ekki auðvelt starf og á hverju ári kem ég með fjárhagsáætlun sem miðar fyrst og fremst að því að viðhalda gæðum Urriðavallar ásamt því að vega og meta hækkun meðlimagjalds ár hvert. Fram til þessa og einnig í nýrri fjárhagsáætlun hefur hækkunum verið stillt í hóf og horft til „eðlilegrar“ hækkunar þar sem launa- og neysluvísitala eru teknar og vegnar inn í hækkunina. En þrátt fyrir að ég sé ár hvert að íþyngja félagsmönnum með hækkunum á gjöldum fer ég þess á leit við ykkur að ég fái ykkar atkvæði til áframhaldandi setu í stjórn Golfklúbbsins Odds. Það er klárt að rekstur klúbbsins, réttu megin við „núllið“ er það sem skiptir máli. Nú fara í hönd mikilvægir tímar þar sem að tekist verður á um stækkun Urriðavallar um 9 holur. Öll tilskilin leyfi eru komin í hús en fjármögnunin er verkefni næstu mánaða, þessi gríðarlega fallegi völlur sem er inni í einhverju fallegasta landi sem hægt er að hugsa sér sem golfvallarsvæði verður enn fegurri þegar búið verður að fjölga holum, breyta og bæta núverandi holum og tel ég mikilvægt að þeir sem að þeirri undirbúningsvinnu hafa komið sinni henni áfram sem sitjandi stjórnarmenn.
Ég er giftur, á fimm börn, þar af þrjú sem stunda golf, tveir drengir í Oddi en ein er við nám í USA og spilar sitt golf þar, ekki sem afrekskylfingur heldur með öðru námi. Eiginkona mín, Anna Sigríður Ásgeirsdóttir er í barna og unglingaráði án þess að við eigum börn á þeim aldri sem þar æfir, þetta lýsir áhuga okkar hjóna á sjálfboðaliðsstarfi og hugsun að gera vel fyrir samfélagið. Þar situr hún með Páli Pálssyni í stjórn sem einnig býður sig fram til áframhaldandi stjórnarstarfa í Oddi. Það samstarf innan BUR er á góðri vegferð og styð ég Pál til áframhaldandi stjórnarsetu í Oddi. Ég hef gríðarlega mikla reynslu af stjórnunarstörfum í áhugamanna félögum, starfaði í 33 ár sem skíðaþjálfari í skíðadeild Breiðabliks og Víkings. Sat í meistaraflokksráði karla í knattspyrnu í Breiðablik ásamt því að vera aðalmaður í stjórn Knattspyrnudeildar Breiðabliks. Sá um og er einn af stofnendum Kópavogsblótsins sem endaði á að setja heimsmet í þátttöku á þorrablóti en rúmlega 2.500 manns voru samankomin á því blóti, en það var kannski ekki erfitt þar sem að þorrablót eru nánast bara haldin á Íslandi. Það væri mér mikill heiður ef þið, félagsmenn í Oddi ljáið mér atkvæði ykkar til áframhaldandi stjórnarsetu í Oddi.
Núverandi stjórn er gríðarlega samheldin og er mikil orka og góð ára yfir okkar störfum, áfram Golfklúbburinn Oddur og áfram við – Urriðasvæðið er framtíðar útivistarsvæði stórhöfuðborgarsvæðisins og vil ég taka þátt í mótun þess.
Ég, Páll Kolka Ísberg, býð mig fram til setu í aðalstjórn golfklúbbsins Odds 6. desember 2025. Bakgrunnur minn eru störf í yfir 45 ár í bankakerfinu, að mestu í stjórnunarstörfum, og þarf af fimm ár erlendis í Noregi.
Hef ég fjölbreytta reynslu á sviði stjórnunar og stefnumótunar, alþjóðlegra viðskipta, verkefnastjórnunar og samningastjórnunar. Hef stýrt eða stjórnað fjölda verkefna m.a. sem framkvæmdastjóri verkefnastofu Íslandsbanka og bar þar m.a. ábyrgð á mjög stórum verkefnum, sum hver t.a.m. stærri að umfangi en fyrirhugað verkefni um stækkun golfvallar Odds.
Hef ég setið setið í ýmsum stjórnum gegnum lífið s.s. fyrirtækja, félagasamtaka, verkalýðsfélaga og ráða ásamt því að vera formaður margra ólíkra stýrihópa.
Ég gekk í Odd 1999 og hef verið þiggjandi að mestu þennan tíma og langar að gefa til baka til klúbbsins enda kominn á eftirlaun og nægur er tíminn nú ef Guð lofar. Ég lýsi því yfir að ég er “andlega og líkamlega fær um” að leggja mitt af mörkum til framdráttar golfklúbbnum Oddi á næstu árum og framboð mitt er gert með fullri vitund og samþykki míns betri helmings, hennar Unni Helgu Kristjánsdóttur.
Páll Þórir Pálsson (Palli) heiti ég. Ég er 50 ára, giftur og með þrjú börn í Oddinum. Ég hef verið í stjórn Odds fyrst sem varamaður árið 2022 og síðar í aðalstjórn frá 2023. Ég býð mig áfram fram þar sem núverandi stjórn er vel skipulögð, samstíga í verkum og höfum haft mikla ánægju af starfinu. Einnig er ég formaður í barna og unglingaráði. Ég vil sitja áfram í stjórn ekki bara vegna þeirra hlutverka heldur einnig hef ég gaman að því þar sem golfið er mín uppáhalds íþrótt. Mitt mat er þar sem allir bjóða sig fram áfram að við höldum þeirri stefnu og klárum þau mál sem framundan eru og þar með stækkun á Urriðavelli, og komandi stækkun á skála (eða nýjum) ásamt æfingarsvæði innanhúss.
Birt hér í stafrófsröð
Ég býð mig fram í stjórnarsetu í Golfklúbbnum okkar Oddi. Ég hef mikla stjórnunarreynslu og ítarlega þekkingu á rekstri, stefnumótun, breytingarstjórnun, fjármálum og stafrænni umbreytingu sem ég tel að myndi nýtast klúbbnum okkar vel á komandi árum, en framundan eru mörg krefjandi verkefni. Og ég er á þeim stað að hafa tíma og ráðrúm til að geta sinnt stjórnarsetu vel. Hef nú verið í varamaður í stjórn Odds í 2 ár og komið að mörgum málum t.d hagkvæmnismati á stækkun Urriðavallar, undirbúningi vegna nýafstaðinnar haustferðar Odds til Spánar og margt fleira.
Ég byrjaði að spila golf sem strákur og þá á Nesinu þar sem ég og bróðir minn spiluðum saman með hálft sett. Eftir þó nokkra pásu þá byrjaði ég aftur í golfinu með konunni minni og þá á Oddinum.
Áhugi minn á golfi er mjög mikill, þótt forgjöfin sé ekki lág en það stendur til bóta. Ég hef lokið dómaranámskeiði hjá GSÍ sem nýtist vel í golfinu. Mínar áherslur eru þær sömu og fyrr, að tryggja að hinn almenni félagsmaður í Oddi finni sig vel á vellinum okkar og að þjónusta og umgjörð sé að endurspegla þarfir okkar félagsmanna, sem má meðal annars gera með því að leita oftar álits þeirra á þeim málum sem stjórnin er að fjalla um og gera okkar stjórnsýslu þar með opnari og gagnsærri.
Ég er rekstrar- og hagverkfræðingur að mennt, fæddur og uppalinn í Reykjavík. Er kvæntur og á þrjú börn og sex barnabörn. Á eftir golfinu eru það hjólaferðir og fjallgöngur sem ég stunda.
Hef starfað sem stjórnandi í einkareknum fyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum, unnið sem ráðgjafi fyrir innlend og erlend fyrirtæki (Advania, 365 miðla, Kögun, Háskólinn í Reykjavík, Menntamálaráðuneyti og fl.) og verið Oddfellowi í mörg ár og sinnt þar ýmsum trúnaðarstörfum.
_________________________________________________________________________________________________________________
Árni Traustason – sjá kynningu hér ofar en hann er einnig í framboði í aðalstjórn en til vara í varastjórn.
__________________________________________________________________________________________________________________
Guðrún Símonardóttir
Kæri félagi í Golfklúbbnum Oddi
Ég býð mig hér með fram til áframhaldandi setu sem varamaður í stjórn Golfklúbbsins Odds.
Ég hef verið meðlimur í okkar frábæra golfklúbbi síðastliðin fimm ár og þar af verið varamaður í stjórn í tvö ár með vel samstilltum hópi stjórnarmanna sem frábært hefur verið að starfa með.
Ég hef mikinn áhuga á að sjá klúbbinn okkar vaxa og dafna enn frekar og vil endilega taka þátt í þeim spennandi verkefnum sem framundan eru við stækkun Urriðavallar og uppbyggingu á félagssvæðinu öllu.
Ég óska eftir þínu atkvæði til áframhaldandi setu í stjórn klúbbsins.