Nú í upphafi árs var undirritaður samningur milli Golfklúbbsins Odds og nýrra veitingaaðila, þeirra Alfreðs Ómars Alfreðssonar og Evu Bjarkar Björnsdóttur, sem taka við rekstri veitingaþjónustu hér á Urriðavelli frá og með 1. janúar.
Við undirritun samningsins sögðust Alfreð og Eva vera verulega spennt fyrir því að þjónusta klúbbmeðlimi og gesti.
„Við lítum á klúbbhúsið sem hjartað í starfseminni. Þar á að vera gott að staldra við, hittast, njóta góðra veitinga og augnabliksins hvort sem dagurinn endar á 18 holum eða einfaldlega í góðum félagskap.Okkar hlutverk er að skapa ramma utan um þessar stundir með hlýlegri þjónustu, faglegu handbragði og metnaði fyrir því að gera hlutina vel.”
Hér er smá kynning á þeim hjónum sem við bjóðum hjartanlega velkomin til starfa.
Alfreð hóf störf í veitingageiranum 16 ára gamall á Kjúklingastaðnum í Suðurveri og lærði síðar matreiðslu á Hótel Sögu (Radisson SAS). Þar lagði hann grunn að ferli sem hefur spannað bæði hágæða veitingarekstur, heildsölu og rekstur mötuneytis.
Á ferli sínum hefur Alfreð starfað sem yfirmatreiðslumeistari á veitingastaðnum Sommelier, starfaði á Mosimann´s í London og leiddi umfangsmikinn veitingarekstur hjá Arion banka í tæp 14 ár. Alfreð vann í golfskálanum hjá GR í Grafarholti á síðasta golftímabili og kviknaði svo sannarlega áhugi hans á golfskálarekstri.
Alfreð er matreiðslumeistari, fyrrverandi forseti klúbbs matreiðslumeistara og fyrrverandi landsliðskokkur til fjölda ára. Hann býr yfir víðtækri reynslu í rekstri og leiðtogastarfi.
Eva hefur starfað í veitingageiranum eftir að hún kynntist Alfreð fyrir 25 árum, þá á hótel Sögu og Grillinu sem og í veiðihúsi og ýmsum veislum. Eva er menntaður hagfræðingur og snyrtifræðingur en hefur starfað við verkefnastjórnun til fjölda ára m.a. hjá Arion banka, Sýn og nú síðast sem teymisstjóri hjá Reykjavíkurborg.
Um leið þökkum við kærlega þeim Axel, Katrínu og Jóa fyrir samstarfið en þau hafa staðið vaktina hér af miklum sóma síðustu fjögur ár, ásamt góðu starfsfólki. Við óskum þeim velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru en þau má m.a. finna á Kaffivagninum sem gengið hefur í gegnum mikla endurnýjun og er í blómlegum rekstri út á Granda. Það verður enginn svikinn af því!