Nokkur orð frá vallarstjóra um stöðu mála og komandi vinnu.
Eftir tíðar sáningar á flötum í vor og byrjun sumars sjáum við nú góðan árangur af þeirri vinnu. Flatirnar hafa að mestu lokast og flestar þeirra eru orðnar nokkuð góðar. Þó varpasveifur (Poa Annua) sem ég fjallaði um í síðasta pistli sé enn ríkjandi grastegund á nokkrum flötum, getum við verið mjög ánægð með framvindu sáninga í flatir vallarins.
Næsta skref í viðhaldi flata hefst mánudaginn 21. júlí og verður þeirri vinnu lokið daginn eftir.
Viðhaldsaðgerðirnar felast í eftirfarandi:
- Lóðskurður:
Flatirnar verða lóðskornar til að fjarlægja dautt gras og hreinsa grassvörðinn. Við þetta losnum við einnig við fræ varpasveifgrassins.
- Sanddreifing:
Flatirnar verða sandaðar til að byggja upp heilbrigðan jarðveg og viðhalda gæðum púttflatarins.
- Sáning og völtun:
Að lokum sáum við í flatirnar með blöndu af túnvingli og língresi og völtum yfir til að loka grassverðinn og tryggja jafna yfirborðsbyggingu.
Truflanir á leik:
Kylfingar mega búast við einhverjum truflunum á leik á meðan á þessum aðgerðum stendur, en flatirnar ættu að jafna sig að fullu innan 2–3 daga.
Fróðleiksmoli – merkingar á vellinum
- Blátt:
Merkir „grund í aðgerð“ – heimilt er að droppa boltanum vítislaust út úr svæðinu. Þetta eru svæði sem við hlúum að og biðjum kylfinga að virða.
- Neon bleikt & neon gult:
Vinnulitir vallarstarfsmanna. Þeir eru notaðir til að afmarka svæði eða merkja slátturlínur
- Girðingar
Víða á vellinum höfum við sett upp girðingar til að takmarka umferð gangandi kylfinga og umferð golfbíla eða golfkerra. Þar sem leyfilegt er að færa til girðingu ef hún truflar leik þá viljum við árétta að mikilvægt er að kylfingar gangi frá henni til baka eins og komið var að girðingunni.
Tryggvi Ölver
Vallarstjóri