• 1. Object
  • 2. Object

11.2° - 6.5 m/s

585 0050

Book Tee Times

Soffía fór holu í höggi og týndi svo boltanum

Soffía Ingibjörg Friðbjörnsdóttir, félagi í Golfklúbbnum Oddi, sló draumahögg allra kylfinga í gær á 4. braut Urriðavallar. Þetta er í fyrsta sinn sem Soffía fer holu í höggi en hún sló draumahöggið með 9-járni.

 

„Ég sá að stefnan var pottþétt þannig að ég var ekkert að horfa á eftir boltanum. Hugsaði með mér að þetta högg gæti dugað fyrir fugli. Ég og maðurinn minn sáum ekki boltann þegar við gengum að flötinni og þá sagði karlinn að boltinn væri líklega í holunni sem koma líka á daginn,“ segir Soffía Ingibjörg.

 

Aðspurð kveðst Soffía það vera ótrúlega tilfinningu að fara holu í höggi. Hún hafi þó haldið ró sinni að mestu og eiginmaður hennar, Teitur Gylfason, hafi eiginlega fagnað meira en hún. „Hann er eiginlega hamingjusamari en ég með þetta afrek,“ segir Soffía og hlær.

 

Boltinn týndist á 13. braut

 

Soffía sá ekki ástæðu til að skipta um bolta þrátt fyrir að boltinn hefði ratað í holu fyrir ás. Ógæfa dundi yfir á 13. braut þegar Soffía sló Callaway bolta sínum til hægri og reyndist hann týndur eftir nokkra leit. „Ég var ekkert að spá í þessu. Það gekk svo vel með þessum bolta að mér datt ekki til hugar að fara að skipta,“ segir Soffía.

 

Um er að ræða Callaway Supersoft bolta merktan með svarti rönd og þremur rauðum punktum. Verði félagar varir við boltann þá eru þeir hvattir til að koma honum til skila í afgreiðsluna á Urriðavelli.

 

Una hag sínum vel í Oddi

 

Soffía hefur spilað golf frá 2009 og er með 23,3 í forgjöf. Hún er ásamt eiginmanni sínum félagi í Golfklúbbnum Oddi. „Það er æðislegt að vera í Oddi og ég get ekki hugsað mér að vera annars staðar. Ég spila líka mjög mikið – 25 til 30 hringi á ári. Golf er yndislegt,“ segir Soffía sem mun sækja um inngöngu í eftirsóttasta golfklúbb landsins á næstu dögum – Einherjaklúbbinn.

 

Golfklúbburinn Oddur óskar Soffíu til hamingju með þetta frábæra afrek og vonar að fleiri kylfingar fylgi í kjölfarið.

< Fleiri fréttir